Fótbolti

Arsenal: Sjö töp í síðustu átta útileikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsenal steinlá í fyrri leiknum á móti AC Milan á sama tíma í fyrra.
Arsenal steinlá í fyrri leiknum á móti AC Milan á sama tíma í fyrra. Mynd/NordicPhotos/Getty
Það hefur ekki gengið vel hjá Arsenal síðustu ár þegar liðið er á útivelli í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar. Lærisveinar Arsene Wenger mæta til München í kvöld þar sem þeir mæta Bayern München í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Arsenal hefur tapað sjö af síðustu átta útileikjum sínum í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar og síðasti útisigur liðsins í þessum hluta Meistaradeildarinnar var á móti AC Milan í sextán liða úrslitum 2008.

Arsenal vann þá 2-0 sigur á AC Milan á San Siro 4. mars 2008 en mörkin skoruðu þeir Cesc Fabregas og Emmanuel Adebayor.

Abou Diaby og Bacary Sagna eru einu leikmenn Arsenal-liðsins í dag sem voru í byrjunarliðinu í þessum leik en Theo Walcott kom inn á sem varamaður á 71. mínútu. Walcott lagði upp mark Adebayor í leiknum.

Arsenal hefur tapað þremur síðustu útileikjum sínum með markatölunni 2-11 en þess ber þó að geta að tveir þeirra hafa verið á móti Barcelona-liðinu. Alls hefur Arsenal-liðið tapað fimm útileikjum í röð í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.

Síðustu átta útileikir Arsenal í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar:

16 liða úrslit 2012: AC Milan - Arsenal 4-0

16 liða úrslit 2011: Barcelona - Arsenal 3-1

8 liða úrslit 2010: Barcelona - Arsenal 4-1

16 liða úrslit 2010: Porto - Arsenal 2-1

Undanúrslit 2009: Manchester United - Arsenal 1-0

8 liða úrslit 2009: Villarreal - Arsenal 1-1

16 liða úrslit 2009: Roma - Arsenal 1-0

8 liða úrslit 2008: Liverpool - Arsenal 4-2

Samantekt:

8 leikir

0 sigrar

1 jafntefli

7 töp

Markatalan: 6-20




Fleiri fréttir

Sjá meira


×