Erlent

„Ég varð að vernda Reevu“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Suður-Afríski spretthlauparinn Oscar Pistorius mætti fyrir dómara í dag, en hann er grunaður um að hafa myrt kærustu sína, Reevu Steencamp.

Það var þungt yfir spretthlauparanum þegar hann lýsti atburðum hinnar afdrifaríku nætur, en saksóknar gefa Pistorius það að sök að hafa skotið Steenkamp fjórum skotum í gegn um baðherbergishurð.

"Ég er mjög meðvitaður um að fólk brýst inn til annars fólks í þeim tilgangi að fremja glæpi. Ég hef fengið morðhótanir í gegnum tíðina og sef því með níu millimetra skammbyssu undir rúminu."

Þetta er brot úr vitnisburði Pistorius hjá dómaranum, en hann segist hafa farið á fætur til þess að loka rennihurð, en þá heyrt skarkala sem barst frá baðherberginu og því hefði hann talið að einhver hefði brotist inn til hans.

"Ég var ekki með gervifæturna áfasta og fannst ég því afar berskjaldaður. Ég varð að vernda Reevu og sjálfa mig," hélt Pistorius áfram.

"Ég kveikti ekki ljósið. Ég færði mig í átt að baðherberginu og öskraði í áttina að hurðinni. Ég stóð á stubbunum þegar ég skaut úr byssunni í gegn um baðherbergishurðina og æpti á Reevu og sagði heni að hringja á lögregluna."

Aðstandendur Pistorius í dómssalnum.
"Hún dó í fanginu á mér"

Þá segist Pistorius hafa farið aftur inn í svefnherbergi og að þá hafi honum dottið í hug sá möguleiki að það gæti hafa verið Steencamp sem væri inni á baðherberginu.

"Þetta var hryllilegt. Ég sparkaði upp hurðinni og hringdi á hjálp. Ég bar hana niður stigann þar sem mér var sagt að bíða ekki eftir sjúkraliðum. Hún dó í fanginu á mér. Eftir á að hyggja, þá tel ég að Reeva hafi farið inn á baðherbergi á meðan ég lokaði rennihurðinni."

Saksóknarar leggjast gegn því að Pistorius verði látinn laus gegn tryggingagjalds, en þeir telja að morðið hafi verið af yfirlögðu ráði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×