Fótbolti

Svindl í Meistaradeildinni á Englandi

Hagræðing úrslita knattspyrnuleikja er mun stærra vandamál en áður var haldið segir Europol sem hefur verið að rannsaka slík mál undanfarna átján mánuði. Í nýjum gögnum frá Europol kemur meðal annars fram að úrslitum leiks í Meistaradeildinni, sem spilaður var á Englandi, hafi verið hagrætt.

Europol vildi ekki gefa upp um hvaða leik væri að ræða en sagði að hann hefði farið fram á síðustu þrem til fjórum árum. Europol getur ekki greint nánar frá málinu þar sem það er enn í rannsókn.

Samkvæmt upplýsingum evrópsku lögreglunnar, Europol, þá hefur úrslitum leikja á HM og EM einnig verið hagrætt.

Í Þýskalandi veðjuðu glæpamenn tæpum 14 milljónum punda á leiki þar sem búið var að sjá til þess að úrslitin yrðu "rétt". Þeir eiga að hafa grætt um 7 milljónir punda á þessum leikjum.

"Það eru skipulögð glæpasamtök í Asíu sem standa á bak við þetta svindl. Þau vinna svo með glæpasamtökum í Evrópu. Þetta er stærsta rannsókn sinnar tegundar og sýnir hversu stórt þetta vandamál er. Við erum búnir að afhjúpa risavaxna glæpastarfsemi," segir Rob Wainwright, yfirmaður Europol.

Europol segir að hagræðing úrslita hafi átt sér stað í 15 löndum og þegar er búið að handtaka 50 manns vegna málsins. Europol er alls að rannsaka 380 knattspyrnuleiki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×