Körfubolti

Ólöf Helga glímir við taugaskemmdir í skothendinni - ferillinn í hættu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólöf Helga lyfti báðum stóru bikurunum á síðustu leiktíð.
Ólöf Helga lyfti báðum stóru bikurunum á síðustu leiktíð. Mynd/Valli
Ólöf Helga Pálsdóttir, fyrirliði Íslands- og bikarmeistara Njarðvíkur á síðasta tímabili og núverandi leikmaður Grindavíkur í Dominos-deild kvenna hefur nánast ekkert getað spilað með Grindavíkurliðinu á þessu tímabili. Víkurfréttir segja frá því í dag að það sér óvíst hvort Ólöf Helga leiki hreinlega aftur körfubolta en hún er 27 ára gömul.

Ólöf lenti í vinnuslysi í ágúst í fyrra sem varð til þess að taugaskemmdir hrjá hana í allri hægri hendinni. Ólöf getur ekkert leikið körfubolta og það sem meira er þá er hún í vandræðum með ýmsa daglega hluti.

„Ég var kannski full jákvæð þegar þetta kom fyrst upp og fór geyst af stað. Ég byrjaði að spila og þá kom strax bakslag. Ég fór til einkaþjálfara og fannst ég verða orðin betri. Ég leitaði svo til sérfræðings sem sagði að ég mætti ekkert gera og um verulegar taugaskemmdir væri að ræða," segir Ólöf Helga í viðtali við VF en þá má sjá alla fréttina með því að smella hér.

„Þetta hefur verið mjög erfitt en ég reyni að vera bara mjög jákvæð. Ég hef hugsað til þess að hætta en reyni eftir fremsta megni að forðast þær hugsanir. Ég reyni að gera eins mikið og ég get til þess að halda mér við efnið. Körfubolti hefur verið líf mitt frá því að ég man eftir mér og því er þetta ótrúlega erfitt," segir Ólöf Helga í fyrrnefndu viðtali við VF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×