Fótbolti

Árið 2013 byrjar ekki vel hjá Casillas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Iker Casillas.
Iker Casillas. Mynd/NordicPhotos/Getty
Árið 2013 byrjar ekki vel hjá spænska landsliðsmarkverðinum Iker Casillas. Fyrst setti Jose Mourinho hann á varamannabekkinn hjá Real Madrid og á miðvikudaginn varð hann síðan fyrir því að handarbrotna í bikarleik á móti Valencia.

Iker Casillas fór í aðgerð í gær á vinstri hendi og gæti verið frá í allt að tólf vikur á meðan hann er að ná sér.

„Aðgerðin gekk vel," sagði læknirinn Miguel Del Cerro við spænska blaðamenn. „Endurhæfingin gæti tekið á bilinu átta til tólf vikur. Það er betra að sjá til hvernig gengur og bíða með að gefa upp nákvæmari tímasetningar," sagði Del Cerro.

Casillas meiddist í leiknum á móti Valencia þegar liðsfélagi hans Alvaro Arbeloa sparkaði óvart í hendi hans þegar Arbeloa ætlaði að hreinsa boltann frá.

Casillas missir líklega að báðum undanúrslitaleikjum spænska bikarsins á móti Barcelona sem og leikjum liðsins í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar á móti Manchester United.

Real Madrid er búið að bregðast við þessum slæmu fréttum því félagið keypti í gær hinn 31 árs gamla Diego López frá Sevilla fyrir 4,5 milljónir evra. López var áður í herbúðum Real og talaði um það að það væri gott að komast heim aftur en frægastur er hann fyrir frammistöðu sína með Villarreal frá 2007 til 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×