Skoðun

Össur fastur í ESB-horninu

Björn Bjarnason skrifar
Lendi stjórnmálamenn úti í horni grípa þeir stundum til „let them deny it"-aðferðarinnar. Þeir bera andstæðinga sína röngum sökum í von um að rangfærslan lifi en ekki hitt sem er satt og rétt.

Össur Skarphéðinsson er stjórnmálamaður í horni, ESB-horni. Hann reynir að brjótast úr því í Fréttablaðinu þriðjudaginn 25. september og segir mig vilja taka upp evru.

Fyrir þessari fullyrðingu utanríkisráðherra eru engin rök frekar en svo mörgu sem hann segir til að fegra ESB-málstað sinn.

Eftir að við sátum saman í Evrópunefnd sem lauk störfum í mars 2007 hef ég sannfærst um að ESB hafi lögheimild til að gera tvíhliða samning um evru-samstarf við ríki utan ESB og samningsstaða Íslands sem evru-ríkis sé lögfræðilega sterk. Nefni ég sem pólitískt fordæmi tvíhliða Prümsamning Íslands við ESB á grundvelli Schengensamstarfsins.

Á tvíhliða evru-lausn hefur aldrei verið látið reyna af Íslands hálfu.

Það háir mjög umræðum við ESB-aðildarsinna að þeir loka augunum fyrir öllu öðru en aðild. Sést æ betur hve hættulegt er að fela slíkum mönnum forystu í viðræðum um aðild að ESB. Allur vafi er túlkaður ESB í vil, íslenskir hagsmunir eru settir í annað eða þriðja sæti.

Ég hef aldrei lýst stuðningi við upptöku evru en sagst tilbúinn að vega og meta hagfræðilegar röksemdir. Við hagfræðilegt mat á gildi evrunnar stöndum við betur að vígi nú en 2007. Evran hefur fallið á prófinu. Það er argasta blekking að ég styðji upptöku hennar.

Össur Skarphéðinsson veit betur en birtist í grein hans. Vilji hann aðstoð mína við að komast úr ESB-horninu verður hann að segja satt.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×