Innlent

Eignarhald veiðijarða flyst úr héraði

Langá Ein margra laxveiðiáa í Borgarbyggð sem veltir miklum fjármunum.Fréttablaðið/Garðar
Langá Ein margra laxveiðiáa í Borgarbyggð sem veltir miklum fjármunum.Fréttablaðið/Garðar
Byggðaráð Borgarbyggðar hyggst láta kanna umfang og samfélagsleg áhrif stangveiða í sveitarfélaginu. Efnahagslegt virði laxveiðanna í Borgarbyggð er áætlað 3,2 milljarðar króna. Er þar tekið tillit til beinna, óbeinna og afleiddra áhrifa.

Að því er segir í fundargerð byggðaráðs kemur fram í lokaverkefni Önnu Steinsen til BS-gráðu í viðskiptafræði frá 2011 að laxveiði í Borgarbyggð var að meðaltali rúmlega fjórðungur af heildarlaxveiði af náttúrulegum stofnum á Íslandi á árunum 1974-2009. Fjórar af tíu fengsælustu laxveiðiám á Íslandi eru í sveitarfélaginu.

Eignarhald á veiðijörðum í Borgarbyggð hefur jafnt og þétt færst úr héraðinu. „Árið 2009 er 41 prósent af veiðijörðum í Borgarbyggð í eigu aðila með lögheimili utan sveitarfélagsins en árið 1990 var það hlutfall 27 prósent," segir í fundargerðinni.

Meðal annars á að kanna vannýtt sóknarfæri í stangveiði, hversu stór hluti starfa í beinum tengslum við stangveiði er unninn af heimamönnum og sömuleiðis hversu stór hluti af aðföngum og þjónustu er keyptur innan héraðs. Einnig möguleika á því að efla hlut sveitarfélagsins og íbúa þess í auðlindinni, svo sem með aukinni atvinnuþátttöku, verslun og þjónustu. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×