Viðskipti innlent

Fékk þrettánfalt matsverð fyrir hlut í Aurum Holding

Steinunn Guðbjartsdóttir er formaður slitastjórnar Glitnis sem rekur málið.
Steinunn Guðbjartsdóttir er formaður slitastjórnar Glitnis sem rekur málið.
Rúmlega fjórðungshlutur í breska félaginu Aurum Holding, sem Glitnir lánaði FS38 ehf. sex milljarða króna til að kaupa í júlí 2008, var 464 milljóna króna virði þegar viðskiptin áttu sér stað. Því var kaupverðið þrettánfalt raunvirði hlutarins. Þetta er niðurstaða dómkvaddra matsmanna í skaðabótamáli sem slitastjórn Glitnis rekur gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni, Lárusi Welding og þremur fyrrum starfsmönnum Glitnis.

Í málinu eru hinir stefndu sameiginlega krafðir um greiðslu á sex milljörðum króna auk vaxta frá miðju ári 2008, en öll lánsupphæðin tapaðist á endanum og bar þrotabú Glitnis allt tapið. Jón Ásgeir og Pálmi fengu hvor sinn milljarðinn af lánsfénu til ráðstöfunar en fjórir milljarðar fóru í að greiða niður lán Fons.

Í lok mars 2011 voru Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði og fyrrum efnahags- og viðskiptaráðherra, og Bjarni Frímann Karlsson, lektor í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, kvaddir til sem matsmenn í málinu. Heimildir Fréttablaðsins herma að matsmennirnir hafi komist að því að virði hlutarins sem FS38 greiddi sex milljarða króna fyrir hafi verið á bilinu 0 til 929 milljónir króna. Niðurstaða þeirra sé því að eðlilegt mat á hlutnum sé mitt á milli efri og neðri marka matsins, eða 464 milljónir króna. Matsmennirnir hafa nú lokið við að meta markaðsverðmæti hlutarins og verður skýrsla þeirra lögð fyrir við fyrirtöku á miðvikudag, þann 2. maí.

Málsvörn hinna stefndu í málinu hefur meðal annars verið sú að snemma árs 2008 hafi Kaupþing haft milligöngu um að kynna fulltrúa Damas Jewellery í Dubai, stærsta skartgripasala Mið-Austurlanda, fyrir forsvarsmönnum Baugs, félags sem Jón Ásgeir var ráðandi í. Í kjölfarið hafi Damas lýst yfir áhuga á að kaupa allan hlut Fons í Aurum og skrifað hafi verið undir óskuldbindandi tilboð um miðjan júní upp á um sex milljarða króna. Hinir stefndu telja að tilurð þess sýni hvaða verðmat lá til grundvallar í væntanlegum viðskiptum. Upp úr viðræðum við Damas slitnaði í október 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×