Fótbolti

Tito stígur úr skugga Guardiola

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tito Vilanova hefur unnið náið með Pep Guardiola síðustu fimm árin en tekur í sumar við stjórn aðalliðs Barcelona.
Tito Vilanova hefur unnið náið með Pep Guardiola síðustu fimm árin en tekur í sumar við stjórn aðalliðs Barcelona. fréttablaðið/AP
Í gær greindi Pep Guardiola frá þeirri ákvörðun sinni að stíga frá borði sem knattspyrnustjóri Barcelona í lok leiktíðarinnar. Við starfinu tekur aðstoðarmaður hans, Tito Vilanova.

Ákvörðun Guardiola um að hætta kom fáum á óvart enda hafði nokkur óvissa ríkt um framtíð hans í dágóðan tíma. Fyrr í vikunni greindu svo fjölmiðlar ytra frá því að það yrði líklega niðurstaðan.

„Fjögur ár eru heil eilífð sem stjóri Barcelona," sagði Guardiola á blaðamannafundi félagsins í gær. „Allt hefur sinn tíma. Ég er búinn á því og þarf að taka mér tíma til hlaða batteríin. Eina leiðin til þess er að stíga til hliðar – annars hefði áframhaldandi samstarf skaðleg áhrif á báða aðila."

Hann sagði það trú sína að nýr maður hafi ýmislegt fram að færa sem hann getur ekki boðið upp á. Sá maður heitir Francesc „Tito" Vilanova og voru forráðamenn félagsins ekki lengi að ganga frá þeirri ákvörðun um að hann tæki við starfinu.

Augnapot MourinhoVilanova er ekki þekktasta nafnið í knattspyrnuheiminum. Nafn hans komst fyrst í heimsfréttirnar þegar Jose Mourinho, stjóri Real Madrid, potaði í auga hans eftir leik liðanna í spænska ofurbikarnum í ágúst síðastliðnum. En hann fær nú tækifæri til að stíga úr skugga farsælasta þjálfara í sögu þessa stórveldis í heimsknattspyrnunni og sanna sitt gildi.

Vilanova er 42 ára gamall og tveimur árum eldri en Guardiola. Hann hóf knattspyrnuferil sinn hjá Barcelona en náði aldrei að spila með aðalliði félagsins. Guardiola var að stíga sín fyrstu skref sem leikmaður á sama tíma og urðu þeir strax þá góðir vinir.

Guardiola átti mjög færsælan feril sem leikmaður Barcelona og varð síðar fyrirliði liðsins. Vilanova spilaði hins vegar aðallega í neðri deildum Spánar og á aðeins 26 leiki að baki í spænsku úrvalsdeildinni.

Hringt í gamlan vinÞeir Guardiola og Vilanova héldu þó ávallt góðu sambandi. Árið 2007, þegar Guardiola var ráðinn til Barcelona til að stýra B-liði félagsins, vildi hann ólmur fá sinn gamla félaga sér við hlið. Vilanova var þá yfirmaður knattspyrnumála hjá C-deildarliðinu Terrassa en þekktist boðið, þó svo að Barcelona B hafi þá spilað í næstu deild fyrir neðan.

Þeir Guardiola og Vilanova stýrðu Barcelona B upp um deild strax á fyrsta ári og voru svo ráðnir til að taka við aðalliði félagsins á vormánuðum 2008, eftir að ákveðið var að Frank Rijkaard myndi ekki halda áfram með liðið.

Við tók ný gullöld hjá Barcelona en félagið vann á þessum árum þrettán titla. Guardiola og Vilanova fóru fyrir sigursælasta þjálfarateymi félagsins frá upphafi og því ef til vill eðlilegt framhald að Vilanova stígi fram á sjónarsviðið, nú þegar að Guardiola hefur ákveðið að hann hafi fengið nóg.

Fjórtándi titilinn innan seilingarÞó svo að stuðningsmenn Barcelona hafi ekki yfir miklu að kvarta eftir velgengni síðustu ára voru það vitaskuld vonbrigði að hafa fallið úr leik í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu, aðeins nokkrum dögum eftir að hafa tapað fyrir Real Madrid í hálfgerðum úrslitaleik spænsku úrvalsdeildarinnar.

Guardiola fær þó tækifæri til að kveðja félagið með titli í lok tímabilsins því Barcelona leikur til úrslita í spænsku bikarkeppninni gegn Athletic Bilbao þann 25. maí næstkomandi. En eftir það mun stund Tito renna upp og verður það hans verkefni að nýta þann frábæra efnivið sem félagið hefur svo það geti náð fyrri hæðum í knattspyrnuheiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×