Erlent

Segir engan vafa leika á sök ákærða

Líður að dómi Maður sem ákærður er fyrir að myrða hjón í fyrra segist saklaus, en ákæruvaldið segir engan vafa leika á sekt hans.
Nordicphotos/AFP
Líður að dómi Maður sem ákærður er fyrir að myrða hjón í fyrra segist saklaus, en ákæruvaldið segir engan vafa leika á sekt hans. Nordicphotos/AFP
Enginn vafi er á að maður sem er ákærður fyrir að hafa myrt miðaldra hjón í nágrenni Óðinsvéa fyrir rúmu ári sé sekur. Þetta segir saksóknarinn í málinu, sem hefur vakið mikla athygli í Danmörku.

Hjónin voru skotin til bana á kvöldgöngu í Árþúsundaskógi um miðjan apríl í fyrra. Talið er að þau hafi komið að ákærða, 38 ára karlmanni, þar sem hann var að skjóta af vélbyssu. Hann hafi skotið þau í stundaræði og reynt að hylja spor sín í kjölfarið.

Leitin að morðingjanum var afar yfirgripsmikil, en mánuði síðar var umræddur maður handtekinn og hefur síðan setið í varðhaldi.

Margt þykir benda til sektar, þar á meðal lífsýni á skothylkjum. Verjandi mannsins segir það ekki taka af tvímæli um að umbjóðandi sinn hafi framið ódæðið, því ákærði hafi um árabil selt og meðhöndlað vopn og skotfæri í undirheimum Óðinsvéa. Verjandinn byggir vörn sína á því að vekja upp vafa á sekt ákærða og vildi meðal annars reyna að varpa sök á annan mann í málinu.

Hinn ákærði bar vitni í fyrradag og neitaði sök. Hann sagðist ekki hafa verið í Þúsaldarskógi þennan dag, þó hann muni ekki hvað hann aðhafðist um daginn.

Í dönskum fjölmiðlum segir að dómur verði kveðinn upp næstkomandi föstudag. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×