Erlent

Rick Santorum dregur sig úr kosningabaráttunni

rick santorum Frambjóðandinn tilkynnti að hann væri hættur að sækjast eftir útnefningu flokksins í Gettysburg í gær. fréttablaðið/Ap
rick santorum Frambjóðandinn tilkynnti að hann væri hættur að sækjast eftir útnefningu flokksins í Gettysburg í gær. fréttablaðið/Ap
Nánast er öruggt að Mitt Romney verði forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, eftir að Rick Santorum dró sig út úr kosningabaráttunni í gær.

Santorum tilkynnti um ákvörðun sína í Gettysburg í gær. Hann sagði að framboði sínu væri lokið og kosningabaráttunni hætt. „Við munum halda áfram að berjast og sigra Barack Obama forseta," sagði Santorum, sem stóð á sviðinu ásamt fjölskyldu sinni. Hann hafði vonast til þess að halda áfram fram yfir forkosningarnar í Pennsylvaníu 24. apríl en ákvað að hætta nú vegna veikinda þriggja ára gamallar dóttur sinnar.

Santorum sagðist hafa komist lengra með framboð sitt en nokkur hefði átt von á. Athygli vakti að Santorum lýsti ekki yfir stuðningi við Romney eða minntist yfirhöfuð á hann í ræðu sinni.

Romney brást við fréttunum í gær og sagði Santorum hafa verið hæfan og verðugan keppinaut. Fátt virðist nú geta stöðvað Romney í því að hljóta útnefningu flokksins á flokksráðstefnunni í ágúst. Hann er með helmingi fleiri kjörmenn en Santorum, sem var næsti maður á eftir honum.

Newt Gingrich sagðist í gær ekki ætla að draga sig í hlé, heldur gefa repúblikönum „alvöru valkost" í haust. Ron Paul er ekki heldur hættur í framboði. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×