Erlent

Flugbíllinn á loft í fyrsta skipti

Á flug Flugbíllinn hefur flugþol fyrir ríflega 1.000 kílómetra flugferð. Um 800 kílómetrar eru milli Íslands og Færeyja. Mynd/Terrafugia.com
Á flug Flugbíllinn hefur flugþol fyrir ríflega 1.000 kílómetra flugferð. Um 800 kílómetrar eru milli Íslands og Færeyja. Mynd/Terrafugia.com
Fyrstu prófunum á nýjum flugbíl sem verið hefur í hönnun undanfarin ár lauk í Bandaríkjunum nýverið. Bíllinn, sem uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til bæði bíla og flugvéla, flaug í um átta mínútur í um 400 metra hæð í fyrsta fluginu.

Flugbílnum er ætlað að vera valkostur fyrir þá sem vilja bæði keyra og fljúga á sama farartækinu. Í bílnum eru sæti fyrir tvo, og er hægt að brjóta saman vængina og leggja bílnum í venjulegt bílastæði, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu Terrafugia.

Til stendur að gera ítarlegar prófanir á flughæfni flugbílsins á árinu, og stefnir fyrirtækið á að selja fyrstu bílana áhugasömum kaupendum á næsta ári. Þegar hafa um 100 pantað sér flugbíl þó að enn eigi eftir að sníða agnúa af hönnuninni.

Bíllinn þarf ríflega 500 metra langa flugbraut til að hafa sig á loft svo áhugamenn um þann ferðamáta sem þetta frumlega farartæki býður upp á verða að notast við flugvelli til að takast á loft. Verðmiðinn ætti þó að tryggja að bílarnir verði ekki sérlega algeng sjón, því hver bíll mun kosta jafnvirði nærri 36 milljónum króna.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×