Innlent

Hámarks miskabætur verði fimmfaldaðar

Frumvarp Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vonast til þess að mikil sátt verði um frumvarp um hækkun bótafjárhæða á Alþingi.Fréttablaðið/gva
Frumvarp Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vonast til þess að mikil sátt verði um frumvarp um hækkun bótafjárhæða á Alþingi.Fréttablaðið/gva
Hámarksbætur sem ríkið greiðir fyrir líkamstjón verða tvöfaldaðar og hámarksbætur fyrir miska verða fimmfaldaðar nái frumvarp Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra fram að ganga.

Samkvæmt frumvarpinu, sem samþykkt var á fundi ríkisstjórnarinnar í gær, munu hámarksbætur fyrir líkamstjón verða 5 milljónir króna, en hámarksbætur fyrir miska 3 milljónir króna, segir Ögmundur.

„Það er gríðarlegt réttlætismál að hækka þessar upphæðir og jafna á milli þessara flokka," segir Ögmundur. Hann bendir á að miskabætur séu greiddar fórnarlömbum í kynferðisbrotamálum. Hingað til hafi ríkið aðeins greitt fórnarlömbunum 600 þúsund krónur að hámarki, en bætur umfram þá upphæð hafi fórnarlömbin þurft að sækja beint til brotamannanna.

„Við erum að rétta hlut fórnarlambanna, þetta er mikið framfaraskref og jafnréttismál," segir Ögmundur.

Spurður hvers vegna bótafjárhæðirnar séu ekki þær sömu í báðum flokkum segir Ögmundur: „Miski getur orðið að varanlegu líkamlegu tjóni, og þá gæti viðkomandi fallið í þann flokkinn." Skammtímaskaði geti, til dæmis í kynferðisbrotamálum, orðið að langtímaskaða, og geti því fallið í þann flokk þegar komi að bótum.

Til að draga úr kostnaði vegna þessara breytinga verður hætt að greiða bætur fyrir minni háttar varanlegan miska, þegar metin örorka nær ekki 15 prósentum, segir Ögmundur. Heildarkostnaður við allar breytingarnar er talinn nema um 10 milljónum króna á ári. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×