Erlent

Ákærður fyrir tvö hryðjuverk

Þau Inga Bajer Engh og Svein Holden kynntu ákæruskjalið á blaðamannafundi í gær.
Þau Inga Bajer Engh og Svein Holden kynntu ákæruskjalið á blaðamannafundi í gær. nordicphotos/AFP
Norski hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik hefur verið ákærður fyrir 77 morð, fjölmargar morðtilraunir og tvö hryðjuverk. Ríkissaksóknari Noregs telur Breivik ekki sakhæfan, en með þeim fyrirvara að eitthvað geti komið fram sem breyti því mati.

Þetta kemur fram í ákæruskjali frá saksóknaraembættinu, sem birt var í gær. Gert er ráð fyrir því að réttarhöldin hefjist um miðjan apríl.

Byggt var á áliti geðlækna sem telja Breivik vera alvarlega geðsjúkan. Enn er þó beðið mats annars hóps geðlækna, sem fenginn var til að fara yfir fyrra læknamatið. Lögmenn Breiviks segja hann ósáttan við að mat á geðheilbrigði hans sé með í ákæruskjalinu.

Inga Bejer Engh ríkissaksóknari segir hugsanlegt að réttarhöldin muni snúast um að verjendur Breiviks reyni að færa rök að sakhæfi gegn rökum saksóknara um ósakhæfi. Hún segir málið fordæmalaust í norskri réttarsögu.

Breivik hefur viðurkennt að hafa myrt 77 manns með sprengjuárás í miðborg Óslóar og skotárás á ungmennasamkomu á Úteyju 22. júlí síðasta sumar.

Samkvæmt ákæruskjalinu voru 564 á Úteyju þegar Breivik kom þangað, en í háhýsinu í Ósló og á götunum fyrir utan voru samtals 325 manns í lífshættu.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×