Skoðun

Harmur kirkjunnar

Það er auðvelt að afgreiða kirkjuna sem afdankaða og úrelta stofnun. Það á við um fleiri stofnanir í samfélaginu. En líklega er það of auðvelt. Kirkjan hefur hlutverki að gegna þótt skoðanir geti verið skiptar um hvert það hlutverk sé eða hvernig því sé sinnt. Víða um heim er kirkjan öflugur málsvari mannhelgi, frelsis og róttækni, og lætur sig órétt og kúgun varða. Vandi kirkjunnar hér á landi er ekki síst sá að hún hefur alla tíð samsamað sig valdinu og varðstöðunni um það. Á Íslandi hafa valdastéttirnar og kirkjan átt samleið um aldaraðir.

Það vill stundum gleymast hversu stutt er síðan fyrsta konan var vígð til prests hér landi. Auður Eir Vilhjálmsdóttir hlaut vígslu árið 1974 og ruddi leiðina fyrir þann fjölda kvenna sem nú gegnir prestsembætti. Valdastöðurnar í þjóðkirkjunni endurspegla hins vegar ekki þessa staðreynd. Í þeim skilningi er kirkjan á sama stað og Alþingi var í upphafi níunda áratugarins.

Til skamms tíma gat ekkert rofið samstöðu valdastéttarinnar og kirkjunnar. Nú hafa hins vegar vaknað vonir um nýja tíma. Konurnar sem árum saman knúðu dyra hafa fengið áheyrn, vonum seinna, hjá æðstu embættismönnum kirkjunnar. Bjartsýnismanneskja gæti leyft sér að vona að hlustun verði framvegis jafn mikilvæg og boðun hjá þjónum kirkjunnar. Kannski er samstaðan með valdinu víkjandi eftir allt saman?

Því miður bendir ekki margt til þess. Á síðasta ári átti kirkjunnar fólk kost á því að kjósa séra Sigrúnu Óskarsdóttur til vígslubiskups í Skálholti. Konu og femínista, sem er framsækinn sóknarprestur í Reykjavík, málsvari réttinda samkynhneigðra innan kirkjunnar og merkisberi alls þess sem prýtt getur kirkju sem vill gegna samfélagslegu hlutverki sínu af alvöru og víðsýni. En kirkjunnar fólk skynjaði ekki sinn vitjunartíma. Biskupskjör stendur fyrir dyrum. Séra Sigríður Guðmarsdóttir er í framboði. Kona, femínisti og framsækinn prestur. Hvað gerir kirkjunnar fólk? Kýs það áframhaldandi varðstöðu með valdinu eða nýja tíma í aldagamalli stofnun?




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×