Innlent

Foreldrar á Eyrarbakka sóttu börnin í skólann

Leitarsvæðið sem björgunarsveitarmenn leita nú á, er um það bil svona stórt, eða 3 kílómetra radíus - það getur hinsvegar stækkað eftir því sem líður á daginn.
Leitarsvæðið sem björgunarsveitarmenn leita nú á, er um það bil svona stórt, eða 3 kílómetra radíus - það getur hinsvegar stækkað eftir því sem líður á daginn. Mynd/Loftmyndir ehf.

„Við reynum að nálgast þetta þannig að þetta hafi engin áhrif á börnin, að þau séu skelfd en maður finnur það í foreldrahópnum að fólk er með varann á sér," segir Magnús J. Magnússon, skólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Fjöldi björgunarsveitar-,lögreglu- og sérsveitarmanna leitar nú að Matthíasi Mána Erlinssyni, fanga á Litla Hrauni, sem strauk í fyrradag. Í dag var ákveðið að hefja leit á Stokkseyrar- og Eyrarbakkasvæðinu.

„Skólastarfið hefur verið með eðlilegum hætti hjá yngra stiginu hér á Stokkseyri. En krakkarnir á Eyrarbakka hafa orðið meira var við þetta. Þar er miklu grimmari leit þar. Björgunarsveitin er með stjórnstöðina fyrir utan skólann, og þeir komu þangað inn til að skipuleggja leitina," segir Magnús.

Aðspurður hvort að foreldrar hafi verið að ná í börn sín í skólann í dag vegna málsins segir Magnús svo vera. „Ég veit til þess að það hefur gerst, en ekki í miklu mæli. Foreldrar hafa varann á sér," segir hann.

Á morgun verða haldin litlu jól í skólanum. „Þá mæta krakkarnir hingað klukkan níu og eftir það lýkur skólahaldi," segir Magnús að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×