Fótbolti

Tíu handteknir þegar Bröndby lagði Rúrik og félaga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tíu stuðningsmenn voru handteknir og einn slasaðist eftir að áhorfendur þustu inn á Bröndby-leikvanginn í Kaupmannahöfn að loknum sigri heimamanna á FC Kaupmannahöfn í gærkvöldi.

Grannliðin eru miklir erkifjendur og var hart barist þrátt fyrir að Bröndby sé í næstneðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar en FCK í því efsta.

Markalaust var að loknum venjulegum leiktíma en heimamenn skoruðu sigurmarkið strax á fyrstu mínútu í framlengingu og ætlaði allt um koll að keyra á Bröndby-leikvanginum.

Þegar dómarinn blés til leiksloka ærðust heimamenn og hlupu sem leið lá inn á völlinn. Markmiðið var að stuða stuðningsmenn gestanna að mati rannsóknarlögreglumannsins Michael Kristiansen.

„Sorglegur eftirmáli leiksins var sá að þúsundir stuðningsmanna Bröndby hlupu inn á völlinn. Tilgangurinn var að láta stuðningsmenn gestanna finna til tevatnsins," sagði Kristiansen.

Þeir sem höfðu sig mest í frammi og brutu reglur er varða flugelda voru handteknir.

„Þetta er til skammar og óásættanlegt. Þróunin er ekki góð. Ég fordæmi þessa hegðun," sagði Emil Bakkendorf yfirmaður öryggisgæslu hjá Bröndby.

Rúrik Gíslason var í byrjunarliði gestanna, Ragnar Sigurðsson á bekknum en Sölvi Geir Ottesen utan hóps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×