Enski boltinn

Solskjaer: Miðvörður Molde er nógu góður fyrir United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vegard Forren.
Vegard Forren. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ole Gunnar Solskjaer er að gera flotta hluti með Molde í norska fótboltanum en liðið er á góðri leið með að vinna deildina annað árið í röð.

Solskjaer hefur sterk tengsl við Manchester United eftir að hafa spilað þar í mörg ár og nú er einn leikmanna hans orðaður við Old Trafford-liðið.

Vegard Forren er 24 ára miðvörður sem hefur spilað með Molde allan sinn feril. Hann hefur blómstrað undir stjórn Ole Gunnar Solskjaer og er kominn inn í norska landsliðið.

Sterkur orðrómur er um að Manchester United hafi áhuga á leikmanninum og Ole Gunnar Solskjaer var spurður út í það.

„Já, hann er nógu góður til þess að spila fyrir Manchester United en ég þarf ekkert að segja honum það. Hann er mjög góður fótboltamaður þegar hann nær sér á strik," sagði Ole Gunnar Solskjaer við TV2.

„Vegard er mjög góður varnarmaður en hann þarf að einbeita sér að því að spila fyrir Molde og vinna sér sæti í norska landsliðinu," bætti Solskjaer við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×