Fótbolti

Áhugi á Aroni í átta deildum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Jóhannsson.
Aron Jóhannsson. Mynd/Anton
Aron Jóhannsson hefur vakið mikla athygli með liði AGF í dönsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en strákurinn er nú markahæsti leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar með tólf mörk í þrettán leikjum.

Aron er reyndar að glíma við meiðsli þessa dagana en hafði áður náð því að skora í sex deildarleikjum í röð og samtals 11 mörk. Það er haft eftir umboðsmanni Arons, Magnúsi Agnari Magnússyni, að mörg lið séu á eftir íslenska framherjanum.

„Það er mikill áhugi á honum en það er engin ástæða til þess að fara nánar út í það," sagði Magnús Agnar við fotbolltransfers.com.

Aron er núbúinn að gera nýjan þriggja ára samning við AGF sem nær til sumarsins 2015.

„Ég get samt staðfest það að það eru lið í ensku úrvalsdeildinni, ensku b-deildinni, spænsku deildinni, ítölsku a-deildinni, þýsku bundesligunni, frönsku deildinni, hollensku úrvalsdeildinni og pólsku úrvalsdeildinni sem hafa áhuga á honum. Lið úr þessum deildum hafa öll skoðað hann á undanförnum mánuðum og ég býst við að þau fylgist áfram með honum," sagði Magnús Agnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×