Fótbolti

Olinga sá yngsti til að skora í spænsku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabrice Olinga fagnar hér með félögum sínum í gær.
Fabrice Olinga fagnar hér með félögum sínum í gær. Mynd/AFP
Malaga þurfti að selja margar af stjörnum sínum fyrir tímabilið vegna fjárhagsvandræða og hetja liðsins í fyrstu umferð spænsku úrvalsdeildarinnar kom úr óvæntri átt. Hinn 16 ára gamli Fabrice Olinga tryggði liðinu 1-0 sigur á Celta Vigo í gær og setti um leið nýtt met í spænsku deildinni.

Fabrice Olinga var þegar búinn að setja met þegar hann kom inn á völlinn enda yngsti leikmaðurinn til þess að spila fyrir Malaga-liðið í efstu deild. Hann var ekki hættur þar. Fabrice Olinga skoraði eina mark leiksins á 84. mínútu þegar hann fylgdi á eftir stangarskoti og skaut sér þannig inn í sögubækurnar.

Fabrice Olinga er aðeins 16 ára og 98 daga gamall og bætti hann met Iker Munain sem var 16 ára og 289 daga gamall þegar hann skoraði fyrir Athletic Bilbao árið 2009.

Fabrice Olinga er fæddur 12. maí 1996 og kemur frá Kamerún en fyrstu skrefin á fótboltavellinum tók hann í kringum fótboltamiðstöð Samuel Eto í heimalandinu. Olinga var áður í herbúðum RCD Mallorca en kom til Malaga árið 2011. Hann var allt í öllu hjá unglingaliði félagsins sem fór alla leið í bikarúrslitin á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×