Fótbolti

Banni Mourinho fyrir augnpotið aflétt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mourinho í leiknum umtalaða á Nou Camp á síðasta ári.
Mourinho í leiknum umtalaða á Nou Camp á síðasta ári. Nordicphotos/Getty
Jose Mourinho mun stýra Real Madrid í leikjunum tveimur gegn Barcelona í ágúst þar sem Spánarmeistararnir mæta sigurvegaranum úr Konungsbikarnum.

Allt ætlaði um koll að keyra í viðureign liðanna við sama tilefni á síðasta ári. Leikmenn liðanna hnakkrifust við hliðarlínuna fyrir framan varamannabekk Barcelona. Gekk þá Mourinho aftan að Tito Vilanova, þáverandi aðstoðarþjálfara Börsunga, og potaði í auga hans.

Mourinho hlaut tveggja leikja bann fyrir hátterni sitt sem gilti þó aðeins í þeirri keppni, Ofurbikarnum. Hann hefði því átt að taka út leikbannið í leikjunum í lok ágúst en ekkert verður af því. Eins leiks banni yfir Vilanova, fyrir viðbrögð hans við árás Mourinho, var einnig aflétt.

Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi hjá spænska knattspyrnusambandinu í dag þar sem dregið var í leikjaniðurröðun komandi tímabils. Forseti sambandsins, Angel Maria Villar, hefur vald til þess að milda eða fella niður leikbönn. Villar var kjörinn forseti til fjögurra ára í febrúar síðastliðnum en í hönd er farið sjöunda kjörtímabil hans.

Vilanova, sem í dag gegnir stöðu knattspyrnustjóra Barcelona, og Mourinho verða því báðir á hliðarlínunni í leikjunum tveimur.

Fróðlegt verður að sjá hvernig Sandro Rosell, forseti Barcelona, bregst við tíðindunum. Hann lét hafa eftir sér að Barcelona gæti ekki liðið það að ekki yrði refsað fyrir ofbeldi gagnvart þjálfara félagsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×