Fótbolti

Börsungar bálreiðir yfir ákvörðuninni um að aflétta banni Mourinho

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það heyrir til undantekninga ef ekki sýður upp úr í viðureignum Barcelona og Real Madrid.
Það heyrir til undantekninga ef ekki sýður upp úr í viðureignum Barcelona og Real Madrid. Nordicphotos/Getty
Forráðamenn spænska knattspyrnurisans Barcelona eru allt annað en sáttir við ákvörðun spænska knattspyrnusambandsins um að aflétta tveggja leikja banni Jose Mourinho, knattspyrnustjóra Real Madrid.

Mourinho var dæmdur í tveggja leikja bann fyrir að pota fingri í auga Tito Vilanova, þáverandi aðstoðarþjálfara Barcelona, í viðureign Barcelona og Real Madrid í ágúst síðastliðnum.

Á þriðjudag aflétti forseti spænska knattspyrnusambandsins banninu og sömuleiðis eins leiks banni Vilaonova fyrir viðbrögð hans við árásinni.

„Við erum reiðir og erum ekki sammála ákvörðun spænska knattspyrnusambandsins," er haft eftir Toni Freixa, talsmanni Barcelona.

„Við teljum að árás á borð við þá sem Mourinho gerði verði að refsa," sagði Freixa og bætti við að árásin hefði verið grafalvarleg auk þess sem „allur heimurinn" hefði orðið vitni að henni.

Freixa segir að Barcelona hafi upphaflega ákveðið að kvarta ekki formlega yfir atvikinu til sambandsins heldur láta það um að leysa úr málinu. Nú, eftir að banninu var aflétt, vill Barcelona að nefnd verði sett á laggirnar til þess að skoða vinnuhætti knattspyrnusambandsins í tengslum við agabrot.

Sömuleiðis þurfi að skoða möguleika Angel Maria Villar, forseta sambandsins, til þess að aflétta bönnum upp á sitt einsdæmi líkt og gert var í tilfelli Mourinho og Vilanova.

Villar var í febrúar endurkjörinn forseti spænska knattspyrnusambandsins í sjöunda skipti en hann hefur setið í embætti í 24 ár. Enginn bauð sig fram gegn Villar.


Tengdar fréttir

Banni Mourinho fyrir augnpotið aflétt

Jose Mourinho mun stýra Real Madrid í leikjunum tveimur gegn Barcelona í ágúst þar sem Spánarmeistararnir mæta sigurvegaranum úr Konungsbikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×