Fótbolti

Barcelona hefur borgað tæplega 16 milljarða fyrir 12 bakverði á 19 árum

Arnar Björnsson skrifar
Nýjasti liðsmaður Barcelona, Jordi Alba.
Nýjasti liðsmaður Barcelona, Jordi Alba. Nordicphotos/Getty
Þrátt fyrir að Barcelona eigi einn frægasta fótboltaskóla heims hafa ekki margir bakverðir komist þaðan í aðallið félagsins. La Masia fótboltaskólinn hefur útskrifað fjöldann allan af leikmönnum í aðrar stöður á vellinum.

Katalóninn Sergi Barjuán lék í mörg ár í vinstri bakvarðarstöðunni og nokkrir hafa reynt fyrir sér í þeirri stöðu. Barcelona keypti á dögunum Jordi Alba fyrir 14 milljónir evra en hann sló í gegn með Spánverjum á síðasta Evrópumóti.

Alba er fæddur í L'Hospitalet de Llobregat, borg sem er suðvestur af Barcelona. Hann var á mála hjá Barcelona til 16 ára aldurs þegar hann var látinn fara. Alba, sem segja má að snúi heim á leið, tekur stöðu Frakkans Eric Abidal sem er frá keppni vegna veikinda í lifur.

Fyrir í hægri bakvarðarstöðunni er Brasilíumaðurinn Daniel Alves en framtíðarmaður í þeirri stöðu er Martín Montoya, 21 árs og sem hefur þegar spilað með aðalliðinu.

Það verður því varla langt að bíða að báðir bakverðir Barcelona verði fyrrverandi nemendur úr La Mesia skólanum sem ætti að spara Börsungum skildinginn.

Spænska íþróttablaðið Marca reiknaði út að frá 1997 hafi Barcelona borgað 100 milljónir evra fyrir 12 bakverði. Það svarar til tæplega 16 milljarða íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×