Innlent

Sveddi tönn var með falsað vegabréf og íslenskt sælgæti

Andri Ólafsson skrifar

„Við lögðum út net og náðum hákarli," segir yfirmaður hjá lögreglunni í Rio De Janeiro í Brasilíu um handtöku Sverris Þórs Gunnarssonar þar í landi. Sverri framvísaði fimm daga gömlu vegabréfi, útgefnu á Íslandi, þegar hann var handtekinn.

Ítarlega var fjallað um málið í fréttatíma Globo sjónvarpsstöðvarinnar í Brasilíu, sem er sú stærsta þar í landi. Þar eru meðal annars birtar myndir af vegabréfinu sem Sverrir framvísaði þegar hann var handtekinn. Það er vegabréf annars manns, en athygli vekur að vegabréfið er nýlegt, gefið út 27 júní síðastliðinn, aðeins fimm dögum áður en Sverrir var handtekinn.

Sverrir er grunaður um að eiga þátt í smygli á um 50 þúsund E-pillum sem fundust í farangri konu á flugvellinum í Rio de janeiro. Sverrir var í sömu flugvél og konan en var handtekinn síðar ásamt öðrum manni. Í kjölfarið var leitað í íbúð Sverris og meðal annars í farangri hans. Þar fannst hass, íslenskt sælgæti, það er að segja ópal, og hundrað þúsund dollarar í reiðufé.

Lögreglan ytra komst fljótlega að því að vegabréfið sem Sverrir framvísaði væri ekki hans eigin. Eftirleikurinn leiddi svo í ljós að Sverrir er eftirlýstur á Spáni eftir að hafa flúið frá 9 ára fangelsisdómi þar í landi

„Það má segja að við höfum varpað út neti til að veiða fiska en fangað stóran hákarl í alþjóðlegri glæpastarfsemi," segir yfirmaður lögreglunnar í Rio de Janeiro.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×