Fótbolti

Liðsfélagi Haraldar hjá Sarpsborg barinn í spað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haraldur Björnsson.
Haraldur Björnsson. Mynd/Anton
Alvaro Baigorri, liðsfélagi Haraldar Björnssonar hjá norska félaginu Sarpsborg 08, varð fyrir fólskulegri árás í miðbæ Sarpsborg um helgina. Baigorri er allur blár og marinn eftir árásina en slapp þó ótrúlega vel. Sarpsborg Arbeiderblad sagði frá þessu.

Baigorri var staddur á skemmtistað með félögum sínum í Sarpsborg-liðinu á laugardagskvöldið þegar hann ákvað að fá sér frískt loft. Þar varð hann fyrir árás tveggja manna sem börðu hann í jörðina og spörkuðu síðan ítrekað í hann liggjandi áður en sá spænski komst aftur á fætur og flúði til liðsfélaga sinna.

Baigorri er í sjokki eftir árásina og segir lítið samkvæmt íþróttastjóra félagsins. Baigorri fékk spark í ennið, í kjálkann og í nýrun en slapp betur en leit út fyrir í fyrstu. Baigorri var þrátt fyrir þetta mættur á æfingu í dag og tók fullan þátt í æfingu liðsins.

Alvaro Baigorri kom til Sarpsborg í vor frá spænska félaginu Ceuta en hann er orðinn 28 ára gamall. Baigorri spilar sem vinstri bakvörður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×