Fótbolti

Barcelona keypti Jordi Alba frá Valencia

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordi Alba og Andrés Iniesta.
Jordi Alba og Andrés Iniesta. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það fjölgaði í dag í hópi leikmanna frá Barcelona og Real Madrid í spænska landsliðinu í fótbolta því Börsungar tilkynntu þá á heimasíðu sinni að þeir væru búnir að kaupa landsliðsbakvörðinn Jordi Alba frá Valencia CF. Barcelona borgar 14 milljónir evra fyrir leikmanninn og hann gerir fimm ára samning við félagið.

Barcelona og Real Madrid áttu átta leikmenn í byrjunarliði Spánar í undanúrslitaleiknum á móti Portúgal og tveir Barcelona-menn komu síðan inn á sem varamenn í leiknum. Jordi Alba var því aðeins einn af þremur leikmönnum í liðinu sem var ekki í risaklúbbunum tveimur en nú hefur hann bæst í hópinn.

Jordi Alba er 23 ára gamall en hefur unnið sér sæti í vinstri bakvarðarstöðu spænska landsliðsins og er hann sem dæmi búinn að spila allar 450 mínúturnar með spænska liðinu á EM. Jordi Alba er búinn að spila óaðfinnanlega á mótinu og lagði líka upp fyrra mark Xabi Alonso á móti Frakklandi í átta liða úrslitunum.

Jordi Alba hefur leikið undanfarin þrjú tímabil með Valencia-liðinu og lék ekki sinn fyrsta landsleik fyrr en síðasta haust. Hann hefur því skotist hratt upp á stjörnuhiminn í spænska fótboltanum.

Jordi Alba var í unglingaakademíu Barcelona, La Masia, á árunum 1998 til 2005 og hann er því enn einn leikmaður Barcelona-liðsins í dag sem hefur farið í gegnum hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×