Fótbolti

Kristín Ýr og Hólmfríður tryggðu Avaldsnes öll þrjú stigin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði sigurmarkið.
Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði sigurmarkið. Mynd/Anton
Kristín Ýr Bjarnadóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir voru báðar á skotskónum þegar Avaldsnes vann 3-2 útisigur á Åsane í norsku b-deildinni í dag. Avaldsnes hefur unnið 8 af 9 leikjum sínum og er með fimm stiga forskot á toppnum.

Åsane komst í 2-0 eftir 37 mínútna leik og þannig var staðan í hálfleik. Maureen Nkeiruka Mmadu minnkaði muninn á 47. mínútu og Kristín Ýr jafnaði metin sjö mínútum síðar. Hólmfríður skoraði síðan sigurmarkið á 65. mínútu.

Bæði Kristín Ýr og Hólmfríður voru báðar valdar í íslenska landsliðshópinn og framundan eru leikir í undankeppni EM. Kristín Ýr var að skora í fjórða leiknum í röð og báðar hafa þær skorað tíu mörk í fyrstu níu leikjunum eða alls 20 af 27 mörkum Avaldsnes-liðsins.

Þetta var í sjötta sinn í níu leikjum Avaldsnes þar sem Kristín Ýr og Hólmfríður eru báðar á skotskónum í sama leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×