Skoðun

Stuðningsgrein: Ég treysti Andreu

Gunnar Skúli Ármannsson skrifar
Andrea Ólafsdóttir er ung kona með reynslu og hún býður sig fram til forseta Íslands. Ég er mjög sáttur við þá ákvörðun hennar. Hún hefur staðið sig frábærlega fyrir Hagsmunasamtök heimilanna. Þar hafa eiginleikar hennar fengið að njóta sín og endurspegla manngerðina.

Hún hefur ekki persónulegra hagsmuna að gæta í baráttu sinni fyrir Hagsmunasamtökin. Þar vinnur hún af hugsjón fyrir aðra en ekki sig og hefur hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Hún hefur auk þess sýnt að hún er fær um að hefja málefnin yfir flokkspólitíkina.  Hún er fær um að setja sig inn í alls kyns flókin málefni á ólíkum sviðum og tala um þau málefnalega og af yfirvegun á mannamáli. Er hægt að hugsa sér betri grunneiginleika í fari forseta landsins?

Fleira skýtur góðum stoðum undir það að Andrea verði góður forseti. Hún hefur sýnt það að hún er eljusöm, nákvæm og fylgin sér(þrjósk). Samtímis hefur hún til að bera auðmýkt og tillitssemi og kemur það fram í því að hún ætlar að leita til þjóðarinnar með þjóðfundi. Þar vill hún að slembivalið úrtak þjóðarinnar semji verklagsreglur fyrir hana sem forseta. Þetta endurspeglar hvernig hún lítur á hlutverk sitt sem verkfæri þjóðarinnar. Hún hefur heitið því að málefni sem brenna á þjóðinni muni hún stuðla að að þau komist til umsagnar þjóðarinnar.

Samtímis sýnir ferill Andreu að hún er einstaklingur sem er fær um að taka ákvarðanir og treysta á eigin dómgreind. Að hafa stundað sjómennsku ung að árum hefur sjálfsagt kennt henni að dómgreind getur skilið á milli farsælni og ógæfu, þ.e. að ákvarðanir hafi afleiðingar. Auk þess að hafa búið víða erlendis á sínum yngri árum sem þroskar getuna til að bregðast við nýjum og framandi aðstæðum. Allt þetta gefur okkur góða von til þess að Andrea sem forseti muni alltaf lenda á fótunum í ólíkum aðstæðum sem starfið hefur upp á að bjóða. Þar sem hún hefur þroskast vel í hverju því starfi sem hún hefur tekið að sér ætti hún að geta vaxið með forsetastarfinu og leitt það áfram til gæfu fyrir þjóðina.

Við þurfum á þessum tímamótum að hugsa um hvort að við sem þjóð viljum setja fordæmi fyrir því að forseti sitji fimm kjörtímabil í embætti, en stærstur hluti þjóðarinnar vill setja því skorður hversu lengi fólk gegnir embættinu. Við þurfum þá í framhaldi af því að hugsa um hver frambjóðendanna er best til þess fallinn að leiða okkur áfram í vegferð að bættu lýðræði með aðkomu fólksins, sem núverandi forseti hefur lagt af stað með og hverjum við treystum best til þess að tryggja meirihlutavilja fólksins. Ég treysti Andreu best til þess.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×