Fótbolti

Mourinho samdi við Real til 2016

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Jose Mourinho skrifaði í dag undir nýjan samning við Real Madrid og mun stýra liðinu til loka tímabilsins 2016.

Þetta var tilkynnt á heimasíðu félagsins en Mourinho er nýbúinn að gera Real Madrid að Spánarmeisturum í fyrsta sinn síðan 2008. Félagið varð þar að auki það fyrsta til að ná 100 stigum á einu og sama tímabilinu í spænsku úrvalsdeildinni.

Hann tók við Real árið 2010 og vann spænsku bikarkeppnina á sínu fyrsta tímabili. Þrátt fyrir árangurinn hefur hann verið orðaður við önnur félög, helst á Englandi, en með þessu er ljóst að Mourinho verður um kyrrt á Spáni um sinn.

Mourinho á glæsilegan feril að baki en hann hefur gert lið að meisturum í Portúgal, Englandi, Ítalíu og Spáni. Er hann fyrsti knattspyrnustjóri sögunnar sem getur státað af þeim árangri.

Hann vann þar að auki Meistaradeild Evrópu með Porto og Inter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×