Íslenski boltinn

Thelma Sif tryggði Selfossi sinn fyrsta sigur í efstu deild

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr leik Selfoss og Vals.
Úr leik Selfoss og Vals.
Selfoss lagði FH að velli 2-1 í nýliðaslag í Pepsi-deild kvenna á Selfossvelli í kvöld. Miðjumaðurinn Thelma Sif Kristjánsdóttir skoraði sigurmark heimakvenna mínútu fyrir leikslok.

Guðmunda Brynja Óladóttir kom heimakonum yfir á 38. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. Aldís Kara Lúðvíksdóttir jafnaði metin fyrir FH á 55. mínútu með sínu þriðja marki í sumar. Aldís Kara skoraði tvívegis í 4-1 sigrinum á ÍBV í síðustu umferð og er markahæst í deildinni með þrjú mörk.

Leikar stóðu jafnir þar til mínútu fyrir leikslok. Þá skoraði Thelma Sif Kristjánsdóttir sigurmark Selfoss og tryggði liðinu um leið sinn fyrsta sigur í efstu deild kvenna.

Selfoss komst með sigrinum upp að hlið FH í 2.-4. sæti deildarinnar með fjögur stig. Liðin hafa þó leikið leik meira en önnur lið í deidlinni en þrír leikir fara fram í 3. umferð annað kvöld.

Klukkan 18.30

Þór/KA - Valur

Klukkan 19.15

Afturelding - Fylkir

ÍBV - Breiðablik

Umferðinni lýkur með viðureign Stjörnunnar og KR í Garðabæ á föstudagskvöldið. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og einnig í opinni dagskrá hér á Vísi.

Upplýsingar um markaskorara frá Urslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×