Fótbolti

Litli og stóri mætast á morgun

Arnar Björnsson skrifar
Tvö sigursælustu liðin í spænsku bikarkeppninni í fótbolta mætast annað kvöld í úrslitaleik á Vicente Calderon vellinum, heimavelli Atletico Madrid. Barcelona hefur 25 sinnum unnið bikarinn en mótherjar þeirra á morgun, Athletic Bilbao 23 sinnum.

Þetta verður kveðjuleikur Pep Guardiola þjálfara Barcelona. Mikill munur er á framherjum liðanna á morgun.

Lionel Messi skoraði 50 mörk í deildinni fyrir Barcelona en Fernando Llorente 17 fyrir Bilbæinga. Messi er 1,69 m. á hæð og 67 kíló en Llorente er 26 sentimetrum hærri og 27 kílóum þyngri.

Báðir eiga það sameiginlegt að hafa leikið sinn fyrsta leik gegn Espanyol.

Messi var 17 ára þegar hann lék 16. október 2004 undir stjórn Franks Rijkaard en Llorente var 19 ára þegar hann fékk sitt fyrsta tækifæri 16. janúar 2005 þegar Ernesto Valverde stýrði baskaliðinu.

Messi og Llorente mættust í 8-liða úrslitum á HM u-20 ára liða í Hollandi 2005 þegar Argentínumenn unnu Spánverja 3-1.

Messi skoraði eitt mark í leiknum og varð markakongur, skoraði 6 mörk, einu marki meira en Fernando Llorente.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×