Íslenski boltinn

KR skoraði úr víti í sjöundu tilraun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sandra Sigurðardóttir með hönd á boltanum en inn fór hann.
Sandra Sigurðardóttir með hönd á boltanum en inn fór hann. Mynd / Daníel
Lið KR í Pepsi-deild kvenna beið lægri hlut í viðureign sinni gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar 3-1 í Garðabæ í gærkvöldi. Það var þó sárabót í tapinu að Vesturbæingum tókst loks að skora úr vítaspyrnu.

KR liðið hafði klúðrað sex vítaspyrnum í röð í efstu deild kvenna þegar Alma Rut Garðarsdóttir steig á punktinn í Garðabænum í gær. Ekki munaði miklu að sú sjöunda færi forgörðum. Sandra Sigurðardóttir, markvörður Stjörnunnar, hafði hendur á skoti Ölmu en í netið lak hann.

Anna Garðarsdóttir, sem lék ekki með KR í gær vegna meiðsla, skaut framhjá úr vítaspyrnu í 1-0 tapinu gegn Þór/KA í 2. umferð.

Á heimasíðu KR hefur Ólafur Brynjar Halldórsson tekið saman þær vítaspyrnur sem farið hafa í súginn hjá hans konum í Vesturbænum, sjá nánar hér.

Myndir úr viðureign Stjörnunnar og KR í gærkvöldi má sjá í myndalbúminu hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×