Íslenski boltinn

Pistill: Mætum á leiki hjá afrekskonunum okkar

Grasið er orðið grænt og sumarið er á næsta leiti. Á sunnudaginn rúllar kvennaboltinn af stað með fimm leikjum í Pepsi deildinni. Bestu knattspyrnukonur landsins munu þá mætast á Akureyri, í Vestmannaeyjum, Kópavogi, Mosfellsbæ og í fyrsta sinn á Selfossi. Keppni í fyrstu deild hefst svo í vikunni eftir.

Við stofnendur Félags Áhugafólks um Kvennaknattspyrnu viljum hvetja knattspyrnukonur og menn til að standa vel á bak við stúlkurnar okkar í sumar og mæta á leikina þeirra.

Íslensk kvennaknattspyrna er að ganga í gegnum sitt mesta gullaldarskeið hingað til. Við eigum fulltrúa í bestu liðum Evrópu, eins og Margréti Láru í Potsdam og Þóru og Söru Björk í LdB Malmö og á annan tug atvinnumanna í greininni frá Noregi til Brasilíu. A landslið kvenna spilaði í fyrra til úrslita á einu sterkasta móti sem fyrirfinnst og stefnir ótrautt á að komast í úrslitakeppni Evrópumótsins í annað skipti í röð. Yngri landsliðin hafa komist langt á alþjóðavísu undanfarin ár og er skemmst að minnast þess að U17 ára landsliðið var meðal þeirra fjögurra bestu í Evrópu fyrir ári síðan og var hársbreidd frá því að ná sama árangri í ár.

Sprenging hefur orðið í yngri flokka starfi félaganna undanfarinn áratug. Símamótið dregur að sér á annað þúsund þátttakenda ár hvert og Herjólfur fyllist af efnilegum stelpum á leið á Pæjumót í byrjun júni. Góður árangur landsliðanna undanfarin ár hefur opnað augu ungra stúlkna fyrir því að þær eiga jafn mikið tilkall til alls þess sem knattspyrnan hefur upp á að bjóða og strákarnir.

Við sem stöndum að Félagi áhugafólks um kvennaknattspyrnu ætlum að boða til funda tengdum leikjum í sumar fyrir þá sem hafa áhuga á að taka þátt í að breiða út boðskapinn. Það er hagsmunamál alls knattspyrnusamfélagsins að tryggja það að konur hafi jöfn tækifæri til knattspyrnuiðkunar og karlar. Við hvetjum fjölmiðla til að sinna þessum frábæru afrekskonum eins og þær eiga skilið. Við eigum að vera stolt af því sem konurnar okkar hafa afrekað hingað og hvetja þær áfram til enn betri verka. Það gerum við með því að mæta á leikina þeirra í sumar, styðja okkar lið og okkar stúlkur.

Gleðilegt knattspyrnusumar

f.h. Félags áhugafólks um kvennaknattspyrnu

Daði Rafnsson www.kvennafotbolti.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×