Fótbolti

Hertha féll í Þýskalandi | Allt brjálað á vellinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stöðva þurfti leik Fortuna Düsseldorf og Herthu Berlínar tvívegis í kvöld vegna óláta áhorfenda. Fortuna tryggði sér þó sæti í þýsku úrvalsdeildinni á kostnað Berlínarliðsins.

Hertha er því fallið eftir aðeins eins árs dvöl í efstu deild en þrír þjálfarar stýrðu liðinu í vetur. Otto Rehhagel var fenginn í mars til að bjarga liðinu frá falli en það tókst ekki.

Hertha endaði í 17. sæti deildarinnar og þurfti því að fara í umspil gegn Düsseldorf sem náði þriðja sætinu í B-deildinni. Leiknum í kvöld lauk með 2-2 jafntefli en Düsseldorf hafði betur samanlagt, 4-3.

Stuðningsmenn Herthu létu óánægju sína í ljós í kvöld með því að kasta flugeldum inn á völlinn í miðjum leik. Staðan var þá 2-1 fyrir Düsseldorf og þurfti Wolfgang Stark, dómari leiksins, að gera hlé á leiknum.

Stark þurfti svo aftur að stöðva leikinn í uppbótartíma þegar að stuðningsmenn Düsseldorf réðust inn á völlinn. Ein mínúta var enn eftir af leiknum þegar það gerðist en stuðningsmennirnir réðu sér greinilega ekki af kæti og hlupu inn á völlinn í hundruðatali.

Leikmenn forðuðu sér af vellinum en eftir fimmtán mínútur hélt leikurinn áfram. Stark flautaði svo loksins leikinn af þar með varð ljóst að Fortuna Düsseldorf mun leika í þýsku úrvalsdeildinni á ný eftir fimmtán ára fjarveru.

Þó gæti það farið svo að Hertha Berlín muni kæra úrslit leiksins vegna atviksins í uppbótartímanum og fara fram á að hann fari fram að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×