Fótbolti

Ari Freyr skoraði í útisigri Sundsvall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ari Freyr Skúlason.
Ari Freyr Skúlason. Mynd/Heimasíða Sundsvall
Ari Freyr Skúlason fagnaði landsliðssætinu með því að skora seinna marka GIF Sundsvall í 2-1 útisigri á GAIS í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. IKF Gautaborg gerði á sama tíma 1-1 jafntefli á útivelli.

Ari Freyr skoraði markið sitt af vítapunktinum á 31. mínútu og kom þá Sundsvall í 2-0. Ari Freyr fékk síðan að líta gula spjaldið á 56. mínútu leiksins.

Ari Freyr var þarna að skora sitt fyrsta mark á tímabilinu en hann hefur spilað mjög vel með nýliðunum.

Þetta var fyrsti sigur Sundsvall í fjórum leikjum en liðið er nú í 10. sæti deildarinnar með 12 stig eftir 10 leiki.

Hjálmar Jónsson spilaði allan leikinn með IFK Gautaborg sem gerði 1-1 jafntefli við Mjällby á útivelli. Hjörtur Logi Valgarðsson sat á bekknum allan tímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×