Fótbolti

Alonso og Casillas: Tókum stórt skref í átt að titlinum

Leikmenn Real fagna í kvöld.
Leikmenn Real fagna í kvöld.
Xabi Alonso, miðjumaður Real Madrid, segir að leikmenn liðsins séu ekki byrjaðir að fagna Spánarmeistaratitlinum eftir sigurinn á Barcelona í kvöld. Alonso segir að það sé enn verk að vinna.

"Þetta er mikið högg fyrir Barcelona en liðið er ekki úr leik. Þetta var afar mikilvægt skref í rétta átt og nú verðum við að einbeita okkur að því að klára verkefnið," sagði Alonso en Real er með sjö stiga forskot á Barcelona eftir leik kvöldsins.

"Við stýrðum þessum leik af snilld. Það þýðir samt ekki að dvelja við þennan sigur því það er annar mjög mikilvægur leikur á miðvikudag."

Iker Casillas, markvörður og fyrirliði Real Madrid, var hæstánægður með sitt lið.

"Við lékum eins og lið. Cristiano stóð sig vel rétt eins og allir hinir. Við vorum sterkt lið frá fyrstu til síðustu mínútu," sagði Casillas en hann vill ekki fagna strax frekar en Alonso.

"Við verðum að bera virðingu fyrir andstæðingum okkar en vissulega tókum við risaskref  í rétta átt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×