Fótbolti

Stelpurnar hennar Elísabetar höfðu betur í Íslendingaslagnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Elísabet og Guðbjörg fögnuðu saman hjá Val haustið 2008.
Elísabet og Guðbjörg fögnuðu saman hjá Val haustið 2008. Mynd / Stefán
Kristianstad undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur lagði Djurgården að velli 1-0 á útivelli í efstu deild sænska kvennaboltans í dag. Af tuttugu og tveimur leikmönnum sem hófu leikinn voru fjórir Íslendingar.

Katrín Ómarsdóttir var á miðjunni og Sif Atladóttir bar fyrirliðabandið í vörninni hjá Kristianstad. Landsliðsfyrirliðinn Katrín Jónsdóttir var á sínum stað í vörn Djurgården og Guðbjörg Gunnarsdóttir stóð vaktina í markinu með fyrirliðabandið um arminn.

Sigurinn var sá fyrsti hjá Elísabet og félögum en liðið hafði aðeins hlotið eitt stig úr fyrstu þremur leikjum sínum á tímabilinu. Djurgården hafði byrjað tímabilið enn verr og er áfram stigalaust eftir tapið.

Edda Garðarsdóttir og félagar í Örebro seinlágu á heimavelli gegn Gautaborg 6-0. Edda spilaði allan leikinn á miðjunni hjá Örebro sem hefur tapað þremur af fjórum fyrstu leikjum sínum í deildinni.

Ólína G. Viðarsdóttir var ekki í leikmannahópi liðsins en hún er sem kunnugt er barnshafandi og á von á sér í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×