Fótbolti

Aron skoraði í tapi gegn Nordsjælland

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aron á ferðinni í U21-landsleik gegn Belgíu.
Aron á ferðinni í U21-landsleik gegn Belgíu. Mynd / Vilhelm
Aron Jóhannsson skoraði fyrir AGF frá Árósum í 4-3 tapi liðsins gegn Nordsjælland. Þetta var annar leikurinn í röð sem Aron skorar fyrir AGF.

Gestirnir frá Árósum komust í 2-0 snemma leiks en heimamenn jöfnuðu í 2-2. Undir lok fyrri hálfleiksins skoraði Grafarvogsbúinn og sá til þess að gestirnir fóru með eins marks forskot í leikhléið.

Aron var einnig á skotskónum í síðustu umferð þegar AGF vann útisigur á Rúrik Gíslasyni og félögum í OB.

Nordsjælland situr í öðru sæti deildarinnar og sýndu styrk sinn í síðari hálfleik. Þeir jöfnuðu fljótlega metin og tvö mörk á síðustu fimm mínútunum tryggðu sigurinn.

Með sigrinum minnkaði Nordsjælland forskot FCK í fimm stig en dönsku meistararnir mæta AaB á morgun. Kaupmannahafnarliðið hefur 58 stig á toppnum en Nordsjælland 53.

AGF situr í 8. sæti deildarinnar eftir tapið með 35 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×