Erlent

Breivik ánægður með að vera metinn sakhæfur

Mynd/AFP
Geir Lippestad, verjandi norska fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik, segir að umbjóðandi sinn sé afar ánægður með nýtt geðmat þar sem segir að hann sé sakhæfur. Hann hafi margoft haldið því fram sjálfur að hann sé heill á geði og því sé honum létt með nýja matið, en í fyrra geðmatinu sem hann gekkst undir var það álit lækna að hann væri geðveikur og því ósakhæfur.

Breivik mun hafa tekið þeim fregnum afar illa og sagt að það versta sem fyrir hann gæti komið væri að verða úrskurðaður ósakhæfur. Nú bíður dómara í máli hans að ákveða á hvoru matinu skuli taka mark á. Búist er við því að dómur falli í málinu í júlí.

Lippestad sagði einnig á blaðamannafundi í dag, eftir að hafa rætt lengi við Breivik um úrskurðinn, að hann hafi sérstaklega tekið fram að hann sjái eftir að hafa ekki gengið lengra en hann gerði þegar hann myrti á sjöunda tug ungmenna í Útey í fyrrasumar. Þá segist hann vera vel undirbúinn undir að eyða ævinni í fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×