Fótbolti

Real lenti undir en vann mikilvægan sigur

Nordic Photos / Getty Images
Cristiano Ronaldo skoraði enn eitt markið fyrir Real Madrid á tímabilinu þegar að liðið vann 3-1 sigur á Sporting Gijon á heimavelli í spænsku úrvalsdeildinni í dag.

Gestirnir komust reyndar yfir þegar að De las Cuevas skoraði mark úr vítaspyrnu á 30. mínútu sem var dæmd á Sergio Ramos fyrir að handleika knöttinn í teignum.

Hann bætti þó fyrir það þegar hann lagði upp jöfnunarmark Real Madrid aðeins sjö mínútum síðar. Hann átti þá flotta sendingu inn í teig sem Gonzalo Higuain skallaði í netið.

Allt var svo í járnum þar til að Ronaldo náði að brjóta ísinn og koma sínum mönnum yfir. Hann gerði það með skallamarki eftir sendingu Angel Di Maria en það var hans 41. deildarmark á tímabilinu. Alls hefur hann skorað 53 mörk í öllum keppnum sem er ótrúlegur árangur.

Karim Benzema fékk svo fína stungusendingu frá Mesut Özil um tíu mínútum fyrir leikslok og tryggði sínum mönnum í Real góðan 3-1 sigur.

Forysta Real er því sjö stig á ný en Barcelona getur minnkað hana aftur í fjögur stig með sigri á Levante. Sá leikur hefst klukkan 20.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×