Fótbolti

Indriði og félagar lögðu meistarana - Hönefoss vann góðan útsigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Indriði Sigurðsson.
Indriði Sigurðsson. Mynd/Valli
Þetta var gott kvöld fyrir Íslendingaliðin í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Kristján Örn Sigurðsson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson og félagar þeirra í Hönefoss unnu 2-0 útisigur á Stabæk og Indriði Sigurðsson og félagar í Viking unnu á sama tíma 1-0 heimasigur á meisturum Molde.

Þetta var fyrsti sigur Hönefoss-liðsins á tímabilinu en nýliðarnir höfðu gert jafntefli í fyrstu þremur umferðunum. Kristján Örn og Arnór Sveinn eru að gera góða hluti í vörninni hjá Hönefoss en liðið hélt þarna hreinu í þriðja sinn í fyrstu fjórum umferðunum. Arnór er í hægri bakverði en Kristján spilar í miðri vörninni. Riku Riski skoraði bæði mörkin á 47 og 93. mínútu.

Indriði lék allan tímann í miðri vörn Viking í sigrinum á lærisveinum Ole Gunnars Solskjær. Martin Ørnskov skoraði sigurmarkið á 51. mínútu leiksins. Viking komst upp í 5. sætið með þessum sigri en Molde bryjar titilvörnina ekki nógu vel og er aðeins í 9. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×