Fótbolti

Barcelona vann mikilvægan sigur á Mallorca

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alexis Sanchez ýtir boltanum (eða ekki) yfir marklínuna.
Alexis Sanchez ýtir boltanum (eða ekki) yfir marklínuna. Nordic Photos / Getty Images
Lionel Messi var í aðalhlutverki að vanda í 2-0 útisigri Barcelona á Mallorca í dag. Börsungar spiluðu stóran hluta seinni hálfleiks manni færri.

Messi tók aukaspyrnu í fyrri hálfleik sem flaut alla leið í fjærhornið. Sjónvarpsmenn töldu í fyrstu að Alexis Sanchez hefði ýtt boltanum yfir línuna og skráðu markið á hann.

Börsungar urðu fyrir áfalli á 57. mínútu þegar Tiago Alcantara var vikið af velli með sitt annað gula spjald. Dómarinn taldi að Tiago hefði vísvitandi handleikið knöttinn sem átti ekki við rök að styðjast.

Guardiola skipti hinum tvítuga Martín Montoya inná fyrir Cesc Fabregas í kjölfarið og átti Montoya fína innkomu. Xavi, sem hóf leikinn óvænt á bekknum, fékk áfram að hvíla lúin bein.

Það var svo miðvörðurinn Gerard Pique sem tryggði Börsungum sigurinn þegar hann fylgdi eftir stangarskoti Lionel Messi. Manni færri pressuðu gestirnir leikmenn Mallorca ofarlega á vellinum og var sigurinn sannfærandi.

Aðeins munar þremur stigum á Barcelona og Real Madrid á toppnum. Toppliðið tekur á móti Real Sociedad síðar í kvöld. Sjá hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×