Íslenski boltinn

Markaleysi og tvö töp í röð hjá Íslandsmeisturunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stjörnustúlkur fögnuðu Íslandsmeistaratitli sínum vel síðastliðið sumar.
Stjörnustúlkur fögnuðu Íslandsmeistaratitli sínum vel síðastliðið sumar. Mynd / Stefán
Íslandsmeistarar Stjörnunnar töpuðu 2-0 gegn Eyjakonum í viðureign liðanna í Lengjubikarnum en leikið var í Kórnum í gærkvöldi.

Hin tvítuga Kristín Erna Sigurlásdóttir skoraði bæði mörk ÍBV. Kristín er dóttir landsliðsmannsins, atvinnumannsins og síðar þjálfarans Sigurlásar Þorleifssonar.

Úrslitin eru nokkuð áhugaverð í ljósi þess að liðin mættust í upphafi árs í Faxaflóamótinu. Þá unnu Stjörnustúlkur stórsigur 5-0. Raunar unnu þær alla fjóra leiki sína í því móti með samanlagða markatölu 20-1.

Stjarnan er stigalaus að loknum tveimur fyrstu leikjum sínum í Lengjubikarnum. Liðið tapaði gegn Val í fyrsta leik sínum, einnig 2-0. Garðbæingar eiga því enn eftir að skora í keppninni.

Það er þó jákvætt fyrir Stjörnuna að markadrottningin Ashley Bares er mætt til leiks á nýjan leik. Bares, sem skoraði 21 mark og var markahæst í efstu deild í fyrra, hefur dvalið vestanhafs í vetur. Hún var í liði Stjörnunnar í gær en tókst líkt og félagar hennar ekki að skora.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×