Fótbolti

Alfreð lagði upp mark og fyrsti bikarinn í hús

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alfreð fer vel af stað í rauðum búningi Helsingborgar.
Alfreð fer vel af stað í rauðum búningi Helsingborgar. Mynd / Twittersíða Alfreðs
Alfreð Finnbogason var í byrjunarliði Helsingborgar þegar liðið lagði AIK í Ofurbikarnum, viðureign landsmeistaranna og bikarmeistaranna, í sænska boltanum í dag.

Markalaust var í leikhléi en Helsingborg, sem lék á heimavelli, komst yfir á 69. mínútu. Þá skoraði Rachid Bouaouazan af stuttu færi. Hollenski kantmaðurinn var aftur á ferðinni um miðjan hálfleikinn eftir undirbúning Alfreðs og tryggði Helsingborg 2-0 sigur.

Alfreð var skipt af velli á 82. mínútu. Helgi Valur Daníelsson spilaði allan leikinn með AIK.

Leikurinn markar upphaf sænska boltans. Helsingborg vann bæði deild og bikar á síðustu leiktíð. Því var AIK, sem hafnaði í öðru sæti deildarinnar, andstæðingur félagsins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×