Sport

Semenya langt frá Ólympíulágmarkinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Caster Semenya, fyrrum heimsmethafi í 800 metra hlaupi kvenna, náði ekki Ólympíulágmarkinu á móti í Suður-Afríku í dag. Semenya hefur verið frá vegna bakmeiðsla en á greinilega töluvert í land. Reuters-fréttastofan greinir frá þessu.

„Ég nálgaðist hlaupið nokkuð heimskulega því ég tók ekki forystuna strax í upphafi. Ég taldi að aðrir hlauparar myndu gefa betur í en maður lærir af mistökum sínum," sagði Semenya sem hljóp á 2:03.60 mínútum.

Ólympíulágmarkið er 1:59.90 mínútur svo Semenya þarf að bæta sig á næstu mánuðum ætli hún sér að keppa í London. Suður-Afríkubúinn á best 1:55.45 í greininni.

Semenya vakti mikla athygli þegar hún varð heimsmeistari í 800 metra hlaupi í Berlín árið 2009. Í kjölfar glæsilegs árangurs vöknuðu spurningar um hvort hún væri í raun kvenkyns.

Alþjóðafrjálsíþróttasambandið meinaði henni þátttöku á mótum þar til hún hefði gengist undir kynpróf. Sumarið 2010 fékk hún svo grænt ljós á að keppa í kvennaflokki á mótum á vegum sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×