Fótbolti

Messi: Guardiola er mikilvægari en ég

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Pep Guardiola.
Lionel Messi og Pep Guardiola. Mynd/Nordic Photos/Getty
Lionel Messi hefur skorað 50 mörk í 43 leikjum fyrir Barcelona á tímabilinu þar á meðal 30 í spænsku úrvalsdeildinni og tólf í Meistaradeildinni. Argentínumaðurinn er þó ekki á því að hann sé mikilvægasti maðurinn í Barcelona-liðinu.

„Pep er mikilvægari fyrir Barcelona en ég. Síðan að hann kom til Barcelona þá hefur hann breytt öllu fyrir okkur. Hann hefur síðan þá unnið allt með okkur sem hægt er að vinna," sagði Lionel Messi eftir 2-0 sigur á Racing Santander í gær þar sem að Messi skoraði bæði mörkin.

Barcelona hefur unnið 13 af 16 mögulegum titlum síðan að Pep Guardiola tók við Barcaelona af Frank Rijkaard sumarið 2008.

„Við óskum þess allir að hann haldi áfram enda tel ég að það langbest fyrir alla. Það yrði mjög erfitt fyrir okkur að finna annan þjálfara sem gæti náð sama árangri með liðið," sagði hinn 24 ára gamli Lionel Messi sem skoraði sjö mörk á aðeins fimm dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×