Innlent

Sturla viðtal: Erlendir bankamenn báru ekkert traust til Kaupþings

Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands, gaf skýrslu fyrir dómi í Landsdómi í morgun. Þorbjörn Þórðarson fréttamaður fékk einkaviðtal við Sturlu að lokinni skýrslutöku þar sem hann skýrði ýmis atriði sem hann bar fyrir dómi.

Viðtalið má sjá með því að smella á hlekk hér fyrir ofan.

Sturla fór ásamt Davíð Oddssyni til Lundúna í febrúar 2008, en Davíð hefur sagt að á þeim fundi hafi erlendir sérfræðingar, bæði banka- og matsfyrirtækja, varað við alvarlegri stöðu íslensku bankanna. Í kjölfar heimkomu til Íslands fundaði Davíð með forsætis-, utanríkis- og fjármálaráðherra og gerði þeim grein fyrir stöðunni 7. febrúar 2008. Ingibjörg Sólrún kallaði fundinn „eins manns útaustur" í andmælabréfi sínu til rannsóknarnefndar Alþingis. Vitnað er til þessa fundar í ákæruskjali gegn Geir Haarde, en hann er m.a sakaður um aðgerðaleysi í kjölfar þessa fundar, sem þó hafi gefið tilefni til aðgerða.

Sturla staðfestir orð Davíðs um aðvaranir bankamanna í Lundúnum. Hann segir að erlendu sérfræðingarnir hafi ekki treyst Kaupþingi og töldu óútskýrða hluti í ársreikningum bankans sem stjórnendur hans hafi ekki gefið trúverðugar skýringar á.

Þá kemur fram í viðtalinu við Sturlu að Icesave-reikningarnir hafi ekki aðeins verið lífæð Landsbankans heldur bankakerfisins alls fyrr á árinu 2008, því hefði þeim verið kippt úr sambandi hefði allt bankakerfið riðað til falls í þeim skilningi að falli einn íslenskur banki, fallir þeir allir. Sem rættist síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×