Innlent

Project Einar hefði tekið nokkur ár

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hrl. í slitastjórn Kaupþings, segir að áform Kaupþings um að flytja alþjóðlega starfsemi bankans undir Singer & Friedlander bankann í Lundúnum sumarið 2008 hefðu tekið nokkur ár í framkvæmd. Þá segir hann að fram að því hafi enginn erlendur banki sent beiðni af slíku tagi um flutning höfuðstöðva til FSA, breska fjármálaeftirlitsins.

Jóhannes Rúnar gaf skýrslu fyrir Landsdómi í dag. Hann sagði m.a að tvær fundargerði hefðu fundist þar sem þessi áform hefðu verið rædd í stjórn Kaupþings. Áætlun stjórnenda Kaupþings, sem Hreiðar Már Sigurðsson lýsti í skýrslutöku í gær, gengu út á að starfsemi Kaupþings á Norðurlöndum færi undir danska bankann FIH, undir merki „Project Hans" og alþjóðleg starfsemi færi undir S&F bankann í Lundúnum, en sú áætlun gekk undir vinnuheitinu „Project Einar." Með þessu hefðu höfuðstöðvar Kaupþings flutt úr landi og samsetning bankakerfisins hefði breyst til muna.

Jóhannes veitti fréttastofu einkaviðtal að lokinni sýrslutöku sem sjá má með því að smella á hlekk hér fyrir ofan.

Jóhannes sagði að þessar áætlanir hefðu verið flóknar og huga hefði þurft að mörgu. Hann sagði hins vegar að um raunveruleg áform hafi verið að ræða sem hafi verið komin af hugmyndastigi. Mörg álitaefni hafi hins vegar þurft að leysa úr áður og sagði hann það sitt mat að flutningur á höfuðstöðvum með þessum hætti hefði tekið að minnsta kosti ár, en líklega nokkur. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×