Íslenski boltinn

Hólmfríður og Kristín Ýr ætla að spila í norsku b-deildinni í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristín Ýr Bjarnadóttir hefur verið markahæsti leikmaður Vals undanfarin þrjú sumur.
Kristín Ýr Bjarnadóttir hefur verið markahæsti leikmaður Vals undanfarin þrjú sumur. Mynd/Hag
Hólmfríður Magnúsdóttir og Kristín Ýr Bjarnadóttir hafa ákveðið að spila með norska b-deildarliðinu Avaldsnes í sumar en þær voru í stórum hlutverkum hjá bikarmeisturum Vals í fyrrasumar.

Hólmfríður er fastamaður í íslenska landsliðinu og önnur markahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi. Hólmfríður endaði tímabilið með Val en ætlaði síðan að spila með bandaríska félaginu Philadelphia Independence. Ekkert varð hinsvegar að því þegar í ljós að deildin færi ekki fram í ár.

Kristín Ýr hefur spilað allan sinn feril með Vals en hún hefur verið markahæsti leikmaður liðsins undanfarin þrjú tímabil, fékk gullskóinn 2009 og 2010 og svo silfurskóinn síðasta sumar. Hún hefur skorað 98 mörk í 115 leikjum í efstu deild fyrir Val.

Avaldsnes hefur sótt fleiri leikmenn til Íslands en Björk Björnsdóttir, markvörður Fylkis, mun einnig spila með liðinu sem og Írinn Diane Caldwell sem lék með Þór/KA í Pepsi-deildinni síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×