Fótbolti

Theódór Elmar með slitið krossband | Frá í 6 til 8 mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Theodór Elmar Bjarnason í landsleik á móti Dönum.
Theodór Elmar Bjarnason í landsleik á móti Dönum. Mynd/AFP
Landsliðsmaðurinn Theodór Elmar Bjarnason getur ekki spilað fótbolta næstu sex til átta mánuði eftir að í ljós kom að hann sleit bæði krossband og innra liðband í hnénu í æfingaleik á móti OB um síðustu helgi. Þetta kemur fram á heimasíðu Randers.

Theodór Elmar sem er 25 ára miðjumaður er nýgengin til liðs við danska b-deildarliðið Randers frá sænska liðinu IFK Gautaborg þar sem að hann hafði spilað frá 2009. Hann var valinn í íslenska landsliðshópinn fyrir leikinn gegn Japan á föstudaginn en missir að sjálfsögðu af þeim leik.

Áður en Theodór Elmar fer í aðgerð þarf hann að þjálfa upp vöðvana í kringum hnéð en almennt tekur það menn meira en hálft ár að koma til baka eftir svona alvarleg hnémeiðsli.

Fyrir leikinn afdrifaríka á laugardaginn þá hafði Theodór Elmar ekki misst af einni æfignu í sex ár ef marka má fréttina af meiðslum hans á heimasíðu Randers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×